Hingað til lands er kominn Færeyingurinn Jákup Skaale. Er hann sannkallaður hvalreki á fjörur Íslands, því hann er hvalreki sem mun halda til í fjörum Íslands næstu mánuði.
„Starfið felst í því að smala hvölunum saman á afmarkað svæði,“ sagði Jákup við komuna til landsins. „Þetta er erfitt starf, kannski svipað kúrekastarfinu, en með talsvert stærri kýr, híhíhí.“
Að sögn Jákups er tilgangurinn með hvalarekstri þríþættur: Að halda blóðþyrstum skepnunum frá því að ráðast á fólk í fjörum, ná þeim í hóp fyrir hvalaskoðunarferðir og loks að gera hvalveiðar auðveldari.
Athafnamenn!
Vinsælu vélritunarnámskeiðin hefjast í næsta mánuði. Fingrasetning, uppsetning verslunarbréfa og margt fleira.
Tómstundaskóli Einars
Ég sé að fullháttvirtur forseti hins háa Alþingis er með eitthvað bakkaklór eftir ömurðarveisluna sem hann hélt á Völlunum að viðstöddu fámenni í gær.
„Forseti Alþingis harmar að heimsókn danska þingforsetans hafi verið notuð til að varpa skugga á hátíðarhöldin og leyfir sér að trúa því að það sé minnihlutasjónarmið að viðeigandi sé að sýna danska þingforsetanum óvirðingu þegar hann sækir okkur heim og kemur fram fyrir hönd danska Þjóðþingsins og dönsku þjóðarinnar.“ — segir forseti.
Ég mótmæli herra forseti.
Þessi vanhugsaða og alls óvelkomna heimsókn var hreint ekki „notuð“ til að varpa skugga á fjölmilljónapartíið þitt. Heiðursgesturinn flóttalegi sá alveg sjálfur um að varpa sínum skoðanamyrka skugga á hátíðahöldin og eyðileggja þau gersamlega.
Það eru miklu fremur Danir sem sýna okkur óvirðingu með því að senda þessa útdönkuðu rasistapíu hingað — og skömmin er þeirra að púkka upp á hana sem þingforseta yfirhöfuð.
Það er nefnilega míkróminnihlutasjónarmið að halda að það sé í lagi að dubba upp rauðklædda rasista og leiða til hásætis á hátíðarþingfundi á sjálfu Lögbergi. Og það að gera lítið úr gagnrýni á þetta skipulagsslys er ekkert annað ómerkilegt yfirklór og eftirámjálm.
Svo eiga menn bara að drullufrussfretast til að biðjast afsökunar á klúðrinu í stað þess að barma sér undan eðlilegum viðbrögðum við þessum skammarlega undirlægju– og druslugunguhætti.
Góðar stundir.