Frétt — Enter — 12. 3. 2004
Aðdáandi Sugababes nr. 1
Hér sést Baldur hlusta andaktugur á Overload, af fyrstu breiðskífu Sugababes.

Baldur Vignisson, netagerðamaður, er einlægur áhugamaður um söngvaskáldin snoppufríðu í Sugababes og er hann að öðrum ólöstuðum aðdáandi sveitarinnar númer eitt á Íslandi.

"Það er rétt, ég hef fylgst með þeim frá því þær voru bara smástelpur, eða síðan í apríl í fyrra. Það voru eiginlega textarnir sem heilluðu mig fyrst, en svo er auðvitað tónlistin frábær og svo eru þetta náttúrulega huggulegar stelpur, þannig."

Baldur er óþreytandi að breiða út fagnaðarerindið, hann hefur stofnað aðdáendaklúbb sveitarinnar með aðsetur á Hofsósi og útibú í Hafnarfirði. Hann heldur fundi tvisvar í viku á hvorum stað og dreifir diskum, bolum og veggspjöldum auk þess sem hann tekur iðulega þekktustu lögin í Karókí.

Þegar blaðamaður spurði Baldur að lokum hvort hann hefði ekki fyrir löngu tryggt sér miða á fyrirhugaða tónleika sveitarinnar fölnaði hann upp og rauk á dyr.

Innritun hafin!

Í allar deildir.
Konunglega tónlistarakademían í Grindavík.

Lesbók22. 10. 2020 — Enter

Það er sérlega ánægjulegt að taka við viðurkenningu fyrir hönd Baggalúts fyrir framúrskarandi rekstur samsteypunnar, og þar með hluti af þeim 2% fyrirtækja sem geta státað af slíkum árangri. Ljóst er að yfirgnæfandi hluti íslensks atvinnulífs er í tómu tjóni og órafjarri frá því að vera framúrskarandi á nokkurn hátt. Mættu þau taka Baggalút og önnur almennileg fyrirtæki sér til fyrirmyndar og hysja upp um sig rekstrarbrækurnar.

Það eru tíu lykilatriði atriði sem hafa komið Baggalúti á þennan eftirsóknarverða stað, sem rétt er að deila með áhugasömum:


  • Ekkert starfsfólk
  • Engin viðvera
  • Ekkert húsnæði
  • Engin þjónusta
  • Engin gildi
  • Engin frí
  • Engin áhætta
  • Ekkert internetsamband
  • Enginn samningsvilji
  • Engin kaffivél

Beri önnur fyrirtæki gæfu til að fylgja fordæmi okkar er ljóst að íslenskur fyrirtækjamarkaður yrði skjótt heilbrigðari og næði undraskjótt að skipa sér í fremstu röð í heiminum. En til þess er lítil von, meðan íslenskir stjórnendur eru upp til hópa óhæfar, ákvarðanafælnar gungur með allan sinn rekstur á bólakafi uppi í bakraufinni á sér.

Góðar stundir.

 
Nýjustu fréttir: