Frétt — Enter — 5. 2. 2003
Safnaði óvart yfirskeggi
Ragnar er gáttaður á sprettunni.

"Ég bara hreinlega skil ekki hvernig þetta gat gerst," sagði Ragnar Bárðarson, kennari, en hann setti sig í samband við Baggalút eftir að í ljós kom að honum hafði sprottið allmyndarlegt yfirskegg - án þess að hann yrði þess var.
Að sögn vina og samstarfsfélaga er Ragnar afar passasamur með rakstur, enda virðst það alls ekki vera vandamálið því haka hans og vangar eru sléttrakaðir.
"Ég er búinn að vera ómögulegur í allan dag, ég myndi aldrei safna svona hormottu - ég er handviss um að ég rakaði mig bæði í gærkvöldi og í morgun."

Ef einhver hefur frekari upplýsingar um málið er hann beðinn um að hafa samband við ritstjórn hið snarasta.

Bókabrenna

Fjölmennum á Miklatún í kvöld. Brenndar verða Litla gula hænan, Svarta kisa, Steini sterki og rauðu leigubílarnir og Græni hatturinn.

Lesbók22. 10. 2020 — Enter

Það er sérlega ánægjulegt að taka við viðurkenningu fyrir hönd Baggalúts fyrir framúrskarandi rekstur samsteypunnar, og þar með hluti af þeim 2% fyrirtækja sem geta státað af slíkum árangri. Ljóst er að yfirgnæfandi hluti íslensks atvinnulífs er í tómu tjóni og órafjarri frá því að vera framúrskarandi á nokkurn hátt. Mættu þau taka Baggalút og önnur almennileg fyrirtæki sér til fyrirmyndar og hysja upp um sig rekstrarbrækurnar.

Það eru tíu lykilatriði atriði sem hafa komið Baggalúti á þennan eftirsóknarverða stað, sem rétt er að deila með áhugasömum:


  • Ekkert starfsfólk
  • Engin viðvera
  • Ekkert húsnæði
  • Engin þjónusta
  • Engin gildi
  • Engin frí
  • Engin áhætta
  • Ekkert internetsamband
  • Enginn samningsvilji
  • Engin kaffivél

Beri önnur fyrirtæki gæfu til að fylgja fordæmi okkar er ljóst að íslenskur fyrirtækjamarkaður yrði skjótt heilbrigðari og næði undraskjótt að skipa sér í fremstu röð í heiminum. En til þess er lítil von, meðan íslenskir stjórnendur eru upp til hópa óhæfar, ákvarðanafælnar gungur með allan sinn rekstur á bólakafi uppi í bakraufinni á sér.

Góðar stundir.

 
Nýjustu fréttir: