Frétt — Kaktuz — 29. 1. 2003
Fundu fágætt fiðrildi
Þessi mynd náðist þegar eltingarleikurinn stóð sem hæst

Tveir íslenskir líffræðinemar á 3. ári, Finnur Gestsson og Marta Guðnadóttir, sem voru í námsferð á Skáni voru svo heppin að fanga þar eitt af sjaldgæfustu fiðrildum Norðurlanda. Tegundin sem um ræðir kallast Silfurtár og er afar eftirsótt af söfnurum víðsvegar um heiminn. Talið er að kvendýrið sem þau fönguðu fari jafnvel á allt að tólf hundruð krónur íslenskar á skordýrauppboði á Internetinu seinna í mánuðnum.

Þau Finnur og Marta voru sammála um að þetta væri það ótrúlegasta og gleðilegasta sem komið hefði fyrir þau, margfalt merkilegra en til dæmis fæðing dóttur þeirra. Um var að ræða fyrstu utanlandsferð þeirra beggja en þau hyggjast í framhaldinu setjast í helgan stein - "..enda aldrei séns að toppa þetta í bransanum," eins og Marta orðaði það svo skemmtilega.

Tapað fundið

Hvítt og móbrúnt lamadýr týndist einhversstaðar milli Hveragerðis og Eyrarbakka um helgina. Svarar nafninu Hermann. Fundarlaun. Skilvís finnandi hafi samband við afgreiðslu Baggalúts.

Lesbók22. 10. 2020 — Enter

Það er sérlega ánægjulegt að taka við viðurkenningu fyrir hönd Baggalúts fyrir framúrskarandi rekstur samsteypunnar, og þar með hluti af þeim 2% fyrirtækja sem geta státað af slíkum árangri. Ljóst er að yfirgnæfandi hluti íslensks atvinnulífs er í tómu tjóni og órafjarri frá því að vera framúrskarandi á nokkurn hátt. Mættu þau taka Baggalút og önnur almennileg fyrirtæki sér til fyrirmyndar og hysja upp um sig rekstrarbrækurnar.

Það eru tíu lykilatriði atriði sem hafa komið Baggalúti á þennan eftirsóknarverða stað, sem rétt er að deila með áhugasömum:


  • Ekkert starfsfólk
  • Engin viðvera
  • Ekkert húsnæði
  • Engin þjónusta
  • Engin gildi
  • Engin frí
  • Engin áhætta
  • Ekkert internetsamband
  • Enginn samningsvilji
  • Engin kaffivél

Beri önnur fyrirtæki gæfu til að fylgja fordæmi okkar er ljóst að íslenskur fyrirtækjamarkaður yrði skjótt heilbrigðari og næði undraskjótt að skipa sér í fremstu röð í heiminum. En til þess er lítil von, meðan íslenskir stjórnendur eru upp til hópa óhæfar, ákvarðanafælnar gungur með allan sinn rekstur á bólakafi uppi í bakraufinni á sér.

Góðar stundir.

 
Nýjustu fréttir: