Sjávarútvegsráðherra hefur gefið út yfirlýsingu þess efnis að kvótalitlum smábátum sé heimilt að veiða utan kvóta í Reykjavíkurtjörn.
Nokkrir smábátaeigendur gripu tækifærinu fagnandi og hófu veiðar þegar í stað. "Þetta er búið að vera helvíti lélegt í dag, bræla og leiðindi, en við erum bjartsýnir og munum reyna annars staðar á svæðinu strax í fyrramálið," sagði Ellert Hergrímsson, sem hóf veiðar upp úr hádegi í dag.
Aðspurður um hvort einhvern fisk sé að hafa í tjörninni sagði Árni M. Mathiesen: "Við höfum sterkar vísbendingar um góðan árgang af marfló á svæðinu." Þess má geta að Hafrannsóknastofnun vinnur nú að skýrslu um svæðið en það hefur fram að þessu verið lítið nýtt til veiða.
"...svo er aldrei að vita nema við sleppum nokkrum laxaseiðum útí, svona fyrir jólin," bætti Árni við sposkur á svip.
Atvinna óskast
Reyndur fjölmiðlamógúll óskar eftir vinnu við hæfi. Reykir ekki.
Ég sé að fullháttvirtur forseti hins háa Alþingis er með eitthvað bakkaklór eftir ömurðarveisluna sem hann hélt á Völlunum að viðstöddu fámenni í gær.
„Forseti Alþingis harmar að heimsókn danska þingforsetans hafi verið notuð til að varpa skugga á hátíðarhöldin og leyfir sér að trúa því að það sé minnihlutasjónarmið að viðeigandi sé að sýna danska þingforsetanum óvirðingu þegar hann sækir okkur heim og kemur fram fyrir hönd danska Þjóðþingsins og dönsku þjóðarinnar.“ — segir forseti.
Ég mótmæli herra forseti.
Þessi vanhugsaða og alls óvelkomna heimsókn var hreint ekki „notuð“ til að varpa skugga á fjölmilljónapartíið þitt. Heiðursgesturinn flóttalegi sá alveg sjálfur um að varpa sínum skoðanamyrka skugga á hátíðahöldin og eyðileggja þau gersamlega.
Það eru miklu fremur Danir sem sýna okkur óvirðingu með því að senda þessa útdönkuðu rasistapíu hingað — og skömmin er þeirra að púkka upp á hana sem þingforseta yfirhöfuð.
Það er nefnilega míkróminnihlutasjónarmið að halda að það sé í lagi að dubba upp rauðklædda rasista og leiða til hásætis á hátíðarþingfundi á sjálfu Lögbergi. Og það að gera lítið úr gagnrýni á þetta skipulagsslys er ekkert annað ómerkilegt yfirklór og eftirámjálm.
Svo eiga menn bara að drullufrussfretast til að biðjast afsökunar á klúðrinu í stað þess að barma sér undan eðlilegum viðbrögðum við þessum skammarlega undirlægju– og druslugunguhætti.
Góðar stundir.