TVÖÞÚSUNDASTA FRÉTTIN
Hundruð frétta bárust í keppnina, misjafnar að gæðum.
Eftir mikla yfirlegu dómnefndar, sem skipuð var núverandi ritstjórn Baggalúts, urðu úrslitin þessi.
Staðgöngugrind
Myndin er tekin á Hrafnistu
Nú hefur íslenska sprotafyrirtækið Senile solutions hafið markaðsetningu á staðgöngugrind. Tækið byggir á sýndarveruleika, og líkir eftir gönguferð um iðnaðarhverfi á suðurnesjum.

"Það lá beinast við að notast við hverfið hérna í kringum fyrirtækið, þó það sé kannski ekki það skemmtilegasta til gönguferða," sagði Jóhann Hall talsmaður Senile solutions.

Þegar hafa margar pantanir borist frá elliheimilum, enda miklu einfaldara að láta gamalmenni ganga á staðnum, sérstaklega þá fjölmörgu sem gengur illa að rata aftur heim.


- 8967855

2. - 11. sæti
2. sæti: 75 ár liðin frá fyrsta brúðkaupi samkynhneigðra
Ísland hefur lengi verið í fararbroddi í málefnum samkynhneigðra og í dag er því fagnað að 75 ár eru liðin frá því að Ari Sveinsson (43) og Sigurður Sturluson (52) gengu í hjónaband.

Af því tilefni bjóða afkomendur þeirra til leðurveislu í Borholu 13, Mosfellsbæ og eru allir velkomnir svo lengi sem þeir eru líberal og hressir.


- Örn Úlfar
3. sæti: Bylting í bílahreinsun
Bíleigendur fylgdust spenntir með þegar fyrsti bíllinn var þveginn hjá Djúphreinsun Daníels.
Í vikunni tók til starfa ný bílaþvottastöð í Grafarvogi. Það er Daníel Sveinsson (71), vélstjóri á eftirlaunum, sem á og rekur stöðina. Í viðtali við útsendara Baggalúts sagði Daníel að hann hefði langað til að drýgja eftirlaunin og því sett á stofn þessa þjónustu á baklóð við einbýlishús sitt að Móhömrum 28.

"Þetta er algjör bylting” sagði Daníel og bætti við: “Allur bíllinn er djúphreinsaður á 5 mínútum".

Þegar Baggalútur skoðaði nýju þvottastöðina var mikið að gera og hálfgert öngþveiti í götunni þar sem bíleigendur biðu í röðum eftir að komast að.

Þess má geta að til mánaðamóta er Daníel með sérstakt kynningartilboð: Djúphreinsun og alþvottur fyrir aðeins 500 krónur.


- Herbjörn Hafralóns
4.- 5. sæti: Seldi verkfæri eftir sveitaball
Þórir, sem fer vel útbúinn í söluferðirnar, tjáði blaðamanni að hjálmurinn og gleraugun væru ekki til sölu.
Þórir Þorsteinsson, lögregluþjónn, gerði sér lítið fyrir og seldi verkfæri að verðmæti 19.800 kr. fyrir utan Njálsbúð eftir árshátíð pípulagningamanna sl. laugardagsnótt.
"Já, ég fékk hugmyndina suður úr Keflavík, en þar hefur lengi tíðkast að stúlkur selji rauðar rósir eftir svona böll" sagði Þórir í löngu spjalli við blaðamann. "Menn hafa svo neyðst til að kaupa rós, ellegar fara þeir einir heim. Mér fannst því kominn tími til að snúa dæminu við, enda sjálfsagt að konur leggi eitthvað að mörkum í þessum efnum" fullyrti Þórir kokhraustur.

Salan lét ekki á sér standa og ruku skiptilyklar og tommustokkar út sem heitar lummur. "Það virðist vera mest eftirspurn eftir 3/4 tommu lyklum, enda ódýrastir" sagði Þórir að lokum.


- Ljómi Hugljúfsson
4.- 5. sæti: Ný stjórn á Grænlandi
Olaf Olsen nýskipaður forsætisráðherra Grænlands sver hér embættiseið sinn, kampakátur.
Ný stjórn hefur tekið við völdum í Grænlandi eftir mánaðarlangar skærur við danska lögreglu. Nýja stjórnin sagði sig umsvifalaust úr lögum við Danmörku og lýsti yfir heilögu stríði á hendur Bandaríkjamönnum.

Jón Baldvin Hannibalsson var fljótur til og viðurkenndi sjálfstæði Grænlands á nýju íslandsmeti, 12 mínútum og 28 sekúndum. Aðspurður kvaðst Jón auðvitað vera ánægður með tímann en hann hafi alltaf vitað að hann gæti náð þessu ef hann fengi tækifæri til þess.


- Glúmur Angan
6.- 7. sæti: Keikó staddur á Austfjörðum
Dúddi flakari:"Sólgleraugun og skeggið göbbuðu mig gjörsamlega"
Svo virðist sem háhyrningurinn Keikó eigi erfiðara með að aðlagast lífinu án manna en ætlað var. Síðustu mánuði hefur hann unnið á Síldarvinnslunni á Neskaupstað, dulbúinn sem Nígeríumaðurinn O'Keik. Lilja Markan, samstarfskona Keikós hafði þetta um málið að segja:

"Okkur fannst hann nú alltaf svolítið skrýtinn, blessaður drengurinn, en var sagt að vera ekki með þessa fordóma bara af því að hann væri svartur. Það var ekki fyrr en að það bættust við 2 nýir starfsmenn frá Nígeríu í síðustu viku að hið sanna kom í ljós."

Yfirmenn frystihússins vildu ekki tjá sig um málið en Halldór Hróðmarsson, verkstjóri, lét þó hafa það eftir sér að "hann hefði ætlað að reka helvítið hvort eð er - afföllin hjá honum voru hrikaleg."

Keikó hefur nú verið sagt upp störfum.


- Steinríkur
6.- 7. sæti: Alvarlegt slys á tilraunastofu R&T verkfræðideildar HÍ
Jón Guðnason, nemi.
Jón Guðnason nemi í rafmagnsverkfræði lenti í því óhappi að sogast inn í áttundu víddina. Þetta slys átti sér stað þegar hann reynda að útfæra sveiflusjá með ritlingnum emacs, sem eins og kunnugir vita er gátt inn í ótrúlegustu víddir alheimsins. Það tók nokkurn tíma að átta sig á því hver af torkennilegum hlutum víddarinnar væri Nonni kallinn en það tókst þó að ná honum til baka að lokum með dyggri aðstoð Guðfræðideildar HÍ.

Nonni er nokkuð breyttur eftir ferðalagið og er enn að reyna að venjast nýju útliti og formi sem gerir honum nokkuð erfitt fyrir í námi sínu. Við óskum Nonna góðs gengis, en Nonni sést á meðfylgjandi mynd.


- Agúrkan
8.- 9. sæti: Gat í jörðu
Ketill fann hellismuna þennan þegar hann gékk til berja ásamt konum sínum fjórum.
Ketill Bollason jarðholusérfræðingur fann á dögunum gat ofan í jörðina.

Í stuttu viðtali sagði Ketill að svo virtist að þetta væri öllu meiri fundur en hann hefði álitið í fyrstu. "Já, þetta breytir sennilega heimsmynd okkar, mér virðist sem þarna þrífist vitsmunalíf, við fyrstu bergmálsmælingar sýnist mér sem jörðin sé hreinlega hol að innan, nú þessi hellismunni hérna er greinilega manngerður og gæti verið hluti af risavöxnu loftræstikerfi."


- Gunnar Björn
8.- 9. sæti: Tekin með yfirvigt
Liu Ding Dong fékk tiltal hjá flugumferðarstjóra sem þó gaf leyfi sitt og sló á létta strengi.
Eiginkona kínverska böðulsins Luo Gans var stoppuð á flugvellinum í Keflavík með yfirvigt. Hún skildi ekki athugasemdir flugvallarstarfsmanna og tókst að brosa sig í gegnum öll hlið með drekkhlaðinn vagn af „handfarangri“, sem aftur olli vandkvæðum þegar hún átti að stíga upp í vél. Eftir stuttan útifund með flugumferðarstjóra og skrifstofufólki Leifsstöðvar í blíðskaparveðri leystust þó málin farsællega og sú kínverska komst upp í vél ásamt eiginmanni sínum.

"Við létum rýma vélina svo hægt væri að koma handfarangri hennar fyrir. Það voru einhverjir fúlir en svo fengu allir samlokur og svona í flugstöðinni meðan við púsluðum fólki á aðrar vélar", sagði framkvæmdastjóri Leifsstöðvar. "Það er auðvitað skrýtið að svona höfðingjar ferðist í almennu farþegaflugi, en líka rétt sem dómsmálaráðherra benti á þegar hann hringdi í okkur – það eru auðvitað sjálfsögð mannréttindi."

Handfarangur frúarinnar mun að mestu hafa verið vörur úr Bláa lóninu og friðarkerti frá Kertasteypu Mosfellsbæjar.


- Sævar
10. sæti: FJÖLKVÆNISGLÆPAMAÐUR HANDSAMAÐUR
Hérna er Jökull með öllum eiginkonum sínum skömmu fyrir handtökuna
Jökull Sívertsson, fyrrverandi landliðsmaður í fimleikum hefur verið ákærður fyrir fjölkvæni. Hann er undanfarinn ár búinn að ferðast um Austur-Evrópu í dulargervi ungversk milljónamærings og plata fólk til að giftast sér. Núna í síðustu viku hafði Interpol upp á honum í sínu 14. brúðkaupi þar sem hann var að giftast hinni júgóslavnesku Selmu Júgóvits.

Jökull játaði allar sakargiftir og segist tilbúin að hætta öllum giftingum, enda orðinn þreyttur á tuðinu í eiginkonum sínum og er hann búinn að sækja um skilnað við 9 af þeim. Hann verður líklega dæmdur í fimm ára fangelsi í Borgundarhólmi.

Jökull segist ætla að snúa sér að því að láta ferma sig í öllum löndum heims eftir fangavistina enda er Jökull mikill áhugamaður um kirkjuathafnir.


- Stoffer
11. sæti: Loksins ný skákvörn
Zkak Ogm Aat var fagnað sem þjóðhetju í heimalandi sínu Kirkistan er fréttin barst út um nýju vörnina en síðast var það Bobby Fisher sem fann upp skákvörn sem hann kallaði "Bobby Fisher vörnina" 1965.
Ungur Kirkistani, Zkak Ogm Aat að nafni, telur sig nú hafa fundið upp á glænýrri skákvörn og hefur hann gefið henni hið frumlega nafn, Kirkistanska vörnin. Sérfræðingar frá Alþjóðlegu eftirlitssamtökum skákvarnamanna hafa staðfest þessa frétt en segja vörnina þá allra slökustu í aldaraðir og merki um hnignun skákheimsins. Byggist vörnin á því að hreyfa ekkert við peðunum heldur hreyfa einungis riddarana. Sérlegur sendiherra bandarískra skákvarnafélaga reyndi að beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir að eftirlitsmenn samtakanna færu til Kirkistan að rannsaka málið en allt kom fyrir ekki.

Ekki hefur Zkak langt að sækja hæfileika sína en faðir hans Thet Term Aat hlaut gríðarlega frægð í heimalandi sínu er hann uppgötvaði Kirkistanska sóknina á sjöunda áratugnum.


- Lubbi